Fréttatilkynning vegna viðbótarlaunakerfis hjá Skattinum

chairs, empty, office-2181916.jpg

Til frekari áréttingar vegna umfjöllunar um launakerfi Skattsins. Breytingar á álögðum gjöldum einstaklinga og lögaðila hafa ekki leitt til þess að starfsfólk Skattsins ávinni sér tilkall eða rétt til viðbótarlauna eða annars konar aukagreiðslna.

Viðbótarlaun ekki háð fjárhæðum í endurákvörðunum

Greiðsla viðbótarlauna hefur byggst á heildstæðu mati tiltekinna þátta sem tilgreindir eru í stofnanasamningum. Við mat á þeim atriðum sem til skoðunar hafa komið við greiðslu viðbótarlauna fylgdi Skatturinn handbók BHM og fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá nóvember 2015 og reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um greiðslu viðbótarlauna til almennra starfsmanna ríkisins. Fyrst og fremst hefur verið horft til framúrskarandi faglegrar þekkingar, faglegra vinnubragða og sveigjanleika af hálfu starfsmanna, en einnig hefur verið horft til þess þegar tímabundið vinnuálag hefur verið umtalsvert mikið.

Viðbótarlaun í fullu samræmi við kjarasamninga og stofnanasamninga BHM

Í kjarasamningum aðildarfélaga í BHM og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. íslenska ríkisins frá árinu 2014 er að finna ákvæði um viðbótarlaunakerfi opinberra stofnana. Upphaflega var um að ræða tilraunaverkefni á vegum ríkisins skv. samningum við aðildarfélög í BHM með þátttöku 31 stofnunar. Skatturinn hefur ekki aðkomu að gerð kjarasamninga en ber að fara eftir þeim og framkvæma m.a. með gerð stofnanasamninga við stéttarfélög.

Aðildarfélög í BHM hafa staðfest að framkvæmd Skattsins um gerð stofnanasamninga sé í fullu samræmi við ákvæði kjarasamninga og þær reglur og leiðbeiningar sem samningsaðilar hafa gefið út. Jafnframt hafa aðildarfélögin ekki séð vankanta á framkvæmd Skattsins á viðbótarlaunakerfi stofnunarinnar eða að hún samræmist ekki þeim markmiðum sem upphaflega voru sett í grein 11.3.3.3. í kjarasamningi aðildarfélaganna í BHM við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins. Þau markmið voru að gera stofnanasamningakerfið skilvirkara og styrkja samkeppnisstöðu stofnana hvað varðar háskólamenntað starfsfólk.

Stofnanasamningum Skattsins og BHM breytt

Þrátt fyrir þær staðreyndir sem að framan eru raktar þá hefur á opinberum vettvangi verið uppi töluverð gagnrýni á að viðbótarlaun séu hluti af launakerfi Skattsins. Hefur sú gagnrýni og umfjöllun um eðli og framkvæmd viðbótarlaunakerfis hjá stofnuninni m.a. miðað að því að draga úr trúverðugleika skattyfirvalda og varpa rýrð á störf þeirra.

Nú er svo komið að þó að Skatturinn og aðildarfélög í BHM telji umrætt viðbótarlaunakerfi vera nútímalegt og gott kerfi sem hafi reynst öllum samningsaðilum vel, þá verður ekki við það unað í ljósi þeirrar stefnu sem umræðan um það hefur tekið. Því hefur Skatturinn ákveðið að leggja af viðbótarlaunakerfið og samið við aðildarfélög BHM um slíka breytingu sem tekur gildi frá og með síðustu áramótum.

Ítarlegri upplýsingar

Á heimasíðu Skattsins:

Yfirlýsing vegna umræðu um launakerfi Skattsins frá 26.1.2024

Á heimasíðu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins:

Handbók um gerð og inntak stofnanasamninga

Á heimasíðu BHM:

Í 11. kafla kjarasamnings er fjallað ummeginþætti og markmið stofnanasamninga.

Deila