Samþykktir félagsins

Samþykktir Félags bókhaldsstofa

I. Kafli: Heiti félags, heimili og tilgangur
1. gr.

Nafn félagsins er Félag bókhaldsstofa, skammstafað FBO. Kennitala þess er 560190-2129.

2. gr.
Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.
3. gr.

Félagsmenn geta orðið allir þeir, sem starfa við bókhald, bókhaldsráðgjöf,
fjárhagsráðgjöf, reikningsskil og skattskil, forráðamenn þeirra félaga sem hafa með höndum slíka starfsemi, þeir sem óska eftir aðild og fullnægja skilyrðum samþykkta þessara.

4. gr.

Tilgangur félagsins er:
Að viðhalda og auka faglega þekkingu félagsmanna.
Að vinna að samræmingu á vinnubrögðum félagsmanna m.a. með útgáfu.
Leiðbeinandi reglna um bókhald, reikningsskil og skattskil.
Að vera vettvangur fyrir gagnkvæm kynni félagsmanna.
Að vinna að auknu samstarfi og þjónustu við opinbera aðila, s.s Ríkisskattstjóra.

5. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná m.a. með reglulegum fundum félagsmanna, ályktunum og
samþykktum, námskeiðahaldi fyrir félagsmenn og starfsmenn þeirra, eitt sér eða í samstarfi við
aðra aðila. Þá heldur félagið úti heimasíðu fyrir félagið sem upplýsinga- og fréttaveitu fyrir
félagsmenn.

II. Kafli: Félagsmenn

6. gr.

Félagsmenn í atvinnurekendadeild geta þeir einstaklingar orðið, sem uppfylla starfsskilyrði sem getið er um í 3. gr. samþykkta þessara;
starfað hafa í greininni í 2 ár,
tilkynnt starfsemina í sínu nafni eða nafni lögaðila til opinberra aðila,

óska skriflega eftir aðild að félaginu við stjórn þess,
eru með starfsábyrgðartryggingu,
og samþykkja samþykktir félagsins.
Jafnframt skal með umsókn um félagsaðild fylgja með nafn meðmælanda umsækjanda.
Allir samþykktir félagsmenn FBO geta verið meðmælendur.
Félagsmenn í almennri deild geta þeir einstaklingar orðið sem hafa hlotið starfheitið
Viðurkenndur bókari eða samskonar staðfestingu á þekkingu og starfa við bókhald, eða bókhaldsráðgjöf en uppfylla ekki skilyrði 1. mgr. 3. gr.

7. gr.

Siðareglur Félags bókhaldsstofa (FBO) eru sjálfstæður hluti samþykkta félagsins. Félagsmönnum er skylt að fara eftir siðareglum félagsins.

8. gr.

Félagsaðild fellur niður ef félagsmenn, segja sig skriflega úr félaginu, hætta starfsemi eða skulda félagsgjald sbr. 24 gr. eða fullnægja ekki kröfum sbr. 25. gr. og 26. gr.
Ef félagsmaður gerist að mati stjórnar sannur að alvarlegu broti í starfi gagnvart opinberum aðilum eða viðskiptavinum sínum eða brýtur sannanlega á öðrum félagsmanni eða félaginu sjálfu, getur stjórnin gert tillögu til aðalfundar um að víkja þeim aðila úr félaginu.

9. gr.

Ef einhver félagsmaður eða utanfélagsmaður hefur unnið mikilvæg störf í þágu félagsins eða
stéttarinnar í heild, getur aðalfundur kjörið slíkan mann heiðursfélaga enda beri stjórn félagsins fram tillögu þar að lútandi.
Stjórn félagsins hefur heimild til þess að gera félagsmann sem lætur af störfum sökum aldurs að ævifélaga.
Þeir félagsmenn sem gerðir hafa verið að ævifélögum eða heiðursfélögum eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda að félaginu.

10. gr.

Félagsmönnum ber að upplýsa stjórn félagsins um breytingar, sem verða á lögheimili þeirra og heimilisfangi starfsstöðvar.
Skal stjórnin halda nákvæma félagaskrá. Sending fundarboða og annarra tilkynninga er gild,
ef þær eru sendar á heimilisfang og/eða netfang þeirrar starfsstöðvar, sem félagsmaður hefur tilkynnt.

11. gr.

Um réttindi og skyldur félagsmanna fer eftir ákvæðum samþykkta þessara.

III. Kafli: Deildir og nefndir

12. gr.
Félaginu er heimilt að starfrækja eftirtaldar deildir:
Atvinnurekstrardeild
Almenna félagsdeild

13. gr.
Félagið skal starfrækja eftirtaldar fastanefndir:
Fræðslunefnd skipuleggur fræðslu á vegum félagsins, svo sem morgunverðarfundi
námskeið og ráðstefnur í samráði við stjórn félagsins
Samskipta- og siðanefnd
Nefndirnar skulu vinna störf sín í samráði við stjórn, sem setja skal þeim erindisbréf þar sem
starfssvið og heimildir eru nánar tilgreind. Nefndarmönnum er óheimilt að skuldbinda félagið án
undangengins samþykkis stjórnar. Stjórn skal boða nefndir á samráðsfund a.m.k. einu sinni á ári.
IV. Kafli: Stjórn

14. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum.
Formaður skal kosinn til tveggja ára í senn.
Ef fleiri en tveir fá atkvæði í formannskjöri, en enginn þeirra helming greiddra atkvæða,
skal kosið að nýju milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu í fyrri kosningu.
Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn, tveir ár hvert.
Kjósa skal tvo varamenn í stjórn til eins árs í senn. Sá sem flest atkvæði hlýtur telst 1. varamaður og sá sem næstflest atkvæði hlýtur 2. varamaður.
Óheimilt er að kjósa sama mann til formanns oftar en tvisvar í röð.
Óheimilt er að endurkjósa meðstjórnendur fyrr en ár er liðið frá því þeir gengu úr stjórn.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, kýs sér varaformann, gjaldkera, umsjónarmann
endurmenntunarpunkta og ritara. Stjórn kýs umsjónarmann heimasíðu félagsins, sbr. 5. gr. samþykkta þessara.
Stjórn hefur heimild til að skipa aðrar nefndir og kalla félagsmenn til einstakra starfa ef þurfa þykir.
Kjósa skal einn skoðunarmann reikninga og annan til vara til eins árs í senn.

15. gr.

Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Stjórnarmaður getur að hámarki setið samfellt í stjórn
félagsins tvö kjörtímabil í senn. Formaður félagsins getur að hámarki gegnt formennsku í
félaginu í tvö kjörtímbil í senn og að hámarki setið samfellt í stjórn félagsins í þrjú kjörtímabil,
sem meðstjórnandi og formaður.

V. Kafli: Fundir og fundarseta

16. gr.

Formaður kveður stjórnina til funda þegar hann telur þess þörf eða einn meðstjórnenda óskar
þess.

17. gr.

Stjórn skal boða til félagsfunda með bréfi og/eða tölvupósti til hvers og einstaks félagsmanns
með minnst 7 daga fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála, er fjallað skal um á
fundinum. Félagsmenn hafa rétt til að krefjast félagsfundar, 1/5 félagsmanna hið minnsta skal
styðja slíka kröfu. Skal það gert skriflega og greina frá fundarefni. Skal stjórnin boða til fundarins
með venjulegum hætti, sem haldinn skal innan 21 dags frá því að henni barst krafa þar um og
geta skal fundarefnis í fundarboði.
Nú verður stjórnin ekki við kröfu um slíkt fundarhald og geta þá þeir, sem fundarins krefjast,
boðað til hans sjálfir.

18. gr.

Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í apríl ár hvert. Skal boðað til hans með bréfi og/eða
tölvupósti með 14 daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Aðalfundi stýrir fundarstjóri, sem kosinn er til þess af fundarmönnum og tilnefnir
hann fundaritara. Hann rannsakar í fundarbyrjun, hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og
lýsir því síðan hvort svo sé.
Fundarstjóri skal stjórna fundinum samkvæmt samþykktum félagsins og almennum reglum um
fundarsköp.
Dagskrá fundarins skal vera:
1. Kosning fundarstjóra og fundaritara.
2. Skýrsla stjórnar
3. Lagður fram áritaður ársreikningur af skoðunarmanni félagsins til afgreiðslu.
4. Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins, ef um þær er að ræða.
5. Kosning formanns.
6. Kosning meðstjórnenda.
7. Kosning tveggja varamanna í stjórn, þ.e. 1. og 2. varamanns.
8. Kosning skoðunarmanns reikninga og annars til vara.
9. Samskipta- og siðanefnd.
9.1 Erindi samskipta- og siðanefndar
9.2 Kosning samskipta- og siðanefndar samkvæmt 8. gr. siðareglna.
10. Tillaga stjórnar um árstillag félagsmanna og inntökugjald næsta reikningsár.
11. Önnur mál.

Atkvæðagreiðsla getur verið rafræn eða farið fram eftir því sem fundarstjóri kveður nánar á um.
Þó skal skrifleg eða rafræn atkvæðagreiðsla fara fram, ef einhver fundarmanna krefst þess.

19. gr.

Á fundum félagsins ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála, nema öðruvísi sé ákveðið í
samþykktum þessum.

20. gr.

Haldin skal gerðarbók þar sem í skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á félagsfundum,
einkum allar fundarsamþykktir. Fundargerð skal lesin upp í fundarlok og borin undir atkvæði.
Fundarstjóri og fundarritari undirrita fundargerðina. Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun
þess, er farið hefur fram á fundinum.
Varðandi stjórnarfundi, þá skal fundarritari senda stjórnarmönnum skýrslu um þá
með tölvupósti til samþykktar eða athugasemda innan viku frá fundi. Ef engar
athugasemdir berast telst fundargerð samþykkt. Fundarritari skal halda til haga útprentuðum
eintökum af samþykktum fundargerðum í tímaröð jafnframt skal geyma alla fundargerðir
á rafrænum gagnagrunni.
VI. Kafli: Fundir og fundarseta

21. gr.

Félag bókhaldstofa er ekki rekið í hagnaðarskyni, nota skal allar eignir og tekjur félagsins til að
vinna að markmiðum þess. Heimilt er að flytja afkomu félagsins milli ára. Fjárhagur félagsins er
óháður fjárhag einstakra félagsmanna. Enginn félagsmaður á hlutdeild í eignum félagsins, né er
nokkur þeirra ábyrgur fyrir skuldbindingum þess.
Ef til skattlagningar kemur, er félagið sjálfstæður skattaðili.
22. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.
Stjórn félagsins annast öll fjármál félagsins. Meirihluti stjórnar þarf til þess að skuldbinda félagið
og fyrir þeim þarf að liggja fundarsamþykkt. Stjórn getur ekki skuldbundið félagið umfram
árstillög félagsmanna né tekið lán í nafni félagsins nema með samþykki löglegs félagsfundar.

23. gr.

Stjórnarmenn félagsins fá greiddan útlagðan kostnað og hæfilega þóknun fyrir störf sín.
Stjórn ákveður launataxta hverju sinni en stjórn félagsins skal yfirfara og samþykkja allar
tímaskýrslur. Sama á við um nefndarstörf annara félagsmanna.
Stjórn er heimilt að ráða starfsmann í verktöku til tilgreindra verkefna.

24. gr.

Aðalfundur ákveður árstillag félagsmanna fyrir hvert ár fyrirfram. Skal stjórnin leggja fram
tillögur þar að lútandi. Stjórn félagsins er heimilt að fella niður árstillag, ef sérstakar ástæður
eru fyrir hendi.
Hafi félagsmaður eigi greitt árstillag sitt fyrir aðalfund vegna síðastu tveggja starfsára, skal
stjórnin fella hann af félagaskrá. Félagsmaður sem felldur hefur verið af félagaskrá öðlast
félagaréttindi sín á ný, er hann hefur greitt skuld sína við félagið, að því gefnu að hann uppfylli
enn önnur skilyrði um félagsaðild skv. 3. gr. , sbr. 6. gr. samþykkta þessara.
Ef brottrekinn aðili skv. 8. gr. sækir um inngöngu að nýju þarf hann þó að senda nýja umsókn til stjórnar FBO.
Gjalddagi félagsgjalda er 1. apríl ár hvert, en eindagi 30 dögum síðar.
Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga ef ekki er greitt fyrir eindaga.
Félagsmaður, sem fer úr félaginu hvort heldur vegna úrsagnar eða af öðrum ástæðum, á hvorki
endurkröfurétt til greiddra félagsgjalda né inntökugjalda.
Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um heiðurs- eða ævifélaga.
VII. Kafli: Endurmenntun félagsmanna

25. gr.

Félagsmaður skal á hverju 5 ára tímabili sækja endumenntun, sem svarar til 100 eininga, sbr. 2.
mgr. Heimilt er að víka frá þessu ef sérstaklega stendur á s.s veikinda.
Einingar skulu reiknaðar sem hér segir;
a) Fundir og námskeið á vegum Félags bókhaldsstofa:
Hálfdags námskeið eða ráðstefna 7,5 einingar
Heilsdags námskeið eða ráðstefna 15,0 einingar
Félagsfundur 4,5 einingar
Önnur fagnámskeið og fræðslufundir/morgunverðarfundir 1,5 eining á klst
b) Námskeið um bókfærslu, reikningsskil, skattamál og tækni 1,5 eining á klst
c) Önnur fagnámskeið samþykkt af stjórn félagsins 1,5 eining á klst
d) Kennsla á háskólastigi og fyrirlestrar sbr b)-lið 1,5 eining á klst
e) Seta í stjórn og nefndum á vegum Félags bókhaldsstofa 30,0 ein/starfsár

26. gr.

Stjórn félagsins skal halda utan um mætingu félagsmanna á námskeið félagsins,
morgunverðarfundi, félagsfundi, auk stjórnar og nefndarsetu á vegum félagsins. Félagsmaður
skal senda stjórn staðfestingu yfir önnur námskeið og endurmenntun sem hann sækir.
Óski stjórn eftir frekari gögnum frá félagsmanni varðandi endurmenntun hans skal félagsmaður
framvísa þeim. Verði félagsmaður ekki við ósk félagsins um að framvísa umbeðnum gögnum
skulu viðkomandi einingar falla niður.
Félagsmenn greiða allan kostnað vegna endurmenntunar sinnar. Ef félagsmaður uppfyllir ekki
kröfur um endurmenntun sb. 25. gr. ber að senda honum aðvörun og veita hæfilegan frest til
úrbóta, ellegar fellur hann af félagaskrá.
VI. Kafli: Breytingar á samþykktum
27. gr.

Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins eða um félagaslit skal ítarlega getið í fundarboði
og skulu þær bornar fram á aðalfundi. Til samþykkis slíkrar tillögu þarf 2/3 greiddra atkvæða.
Hið sama gildir um tillögur um brottrekstur úr félaginu. Aðalfundur getur þó gert breytingar á
samþykktum þessum ef allir viðstaddir félagsmenn samþykkja breytinguna.

Samþykkt á aðalfundi Félags bókhaldsstofa á Hótel Kríunesi 21. apríl 2023.