Meðfylgjandi eru upplýsingar um álagningu stjórnvaldsseta vegna vanskila á ársreikningum fyrir reikningsárið sem lauk 31. desember 2024.
Ársreikningaskrá mun taka út lista yfir þau félög sem ekki hafa skilað ársreikningi fyrir miðnætti þriðjudaginn 30. september 2025 og mun álagning sekta byggjast á þeim lista. Álagning stjórnvaldssekta sbr. ákvæði 1. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga mun byggjast á framangreindum lista og miðast við miðnætti 30. september eins og áður hefur komið fram. Félög sem skila fyrir miðnætti munu því ekki verða sektuð 30. (fyrir utan félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum en sérreglur gilda um skil þessara félaga).
Tímasetningar varðandi lækkanir stjórnvaldssekta sbr. ákvæði 2. mgr. 120. gr. verða eftirfarandi:
- 90% lækkun á stjórnvaldssekt: Félög sem hafa skilað inn ársreikningi til opinberrar birtingar fyrir miðnætti mánudaginn 3. nóvember 2025.
- 60% lækkun á stjórnvaldssekt: Félög sem hafa skilað inn ársreikningi til opinberrar birtingar fyrir miðnætti mánudaginn 1. desember 2025.
- 40% lækkun á stjórnvaldssekt: Félög sem hafa skilað inn ársreikningi til opinberrar birtingar fyrir miðnætti mánudaginn 5. janúar 2025.
Ársreikningaskrá vill ítreka að engu máli skiptir hvort að félög séu með starfsemi eða ekki á almanaksárinu 2024. Öllum félögum sem falla undir gildissvið ársreikningalaga ber að skila ársreikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá hvort sem um er að ræða starfsemi eða ekki. Við viljum benda fagaðilum á að gæta þess að einnig þarf að skila ársreikningum skúffufélaga og allra félaga sem stofnuð voru á árinu 2024 til opinberrar birtingar. Gæta þarf sérstaklega að félög sem voru stofnuð í árslok 2024 en fengu ekki kennitölu fyrr en í ársbyrjun 2025 þurfa einnig að skila ársreikningi til opinberrar birtingar.
Ársreikningaskrá vill einnig taka fram að ef ársreikningi er skilað með skattframtali þá telst slíkur ársreikningur vera fylgigang með framtali og ekki er heimilt að birta þann reikning hjá ársreikningaskrá. Skila verður öllum ársreikningum beint til ársreikningaskrár. Við viljum líka benda á að ársreikningaskrá tekur ekki lengur við gögnum á pappír. Skila ber öllum ársreikningum með rafrænum hætti í samræmi við reglur nr. 786/2023 um rafræn skil ársreikninga til ársreikningaskrár. Í þeim tilvikum sem félög birta svokallaða fjórdálksreikninga í stað ársreiknings móðurfélags og samstæðureiknings þarf að skila reikningnum í bæði hólfin, þ.e. bæði fyrir ársreikning og fyrir samstæðureikning.
Við viljum einnig benda á að lögum um ársreikninga var breytt með þeim hætti að ákvarðanir ársreikningaskrár um stjórnvaldssektir sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 120. gr. eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Ekki er því lengur hægt að kæra álagningu þeirra til Menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Ársreikningaskrá vill einnig benda á a heimild ársreikningaskrár til að fella niður stjórnvaldssektir sbr. ákvæði 8. mgr. 120. gr. er túlkuð þröngt sbr. greinargerð með frumvarpinu og dæmi sem ekki falla undir heimild ársreikningaskrár til niðurfellingu stjórnvaldssekta eru;
- skortur á þekkingu á gildandi lögum og reglum,
- lítill eða enginn rekstur,
- veikindi hjá einum af þeim ábyrgð bera á að skila ársreikningi,
- slæm fjárhagsstaða félagsins,
- sektarfjárhæð er stór hluti af útgjöldum félagsins, og
- mistök bókara, skoðunarmanna, endurskoðanda eða sambandsleysi á milli félagsins og framangreindra aðila.
Af gegnu tilefni þá vill ársreikningaskrá benda fagaðilum á að gæta þess vel að þær upplýsingar sem skráðar eru við innsendingu ársreiknings séu réttar. Í ljós hefur komið við eftirlit fyrirtækjaskrár með raunverulegum eigendum að verulegur misbrestur er á upplýsingum um hluthafa sem fylgja með ársreikningi og sem skilað hefur verið um raunverulaga eigendur félaga beri saman.
Að lokum viljum við benda fagaðilum á að ef vafi er um hvort að ársreikningi hafa verið skilað þá er hægt að ganga úr skugga um það með því að fletta upp á viðkomandi fyrirtæki á upplýsingavef embættisins, www.skatturinn.is – undir Fyrirtækjaskrá – Gögn úr Ársreikningaskrá. Við uppfettingu kemur fram hvort að búið sé að skila ársreikningi og skiladagsetning.
Hér að neðan eru helstu ákvæði laga sem skipta máli hvað hér að framan varðar:
Ákvæði 1. máls. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006:
Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings og samstæðureiknings, ef við á, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, skal félag skv. 1. gr. senda ársreikningaskrá ársreikning sinn, sbr. 3. gr., ásamt áritun endurskoðenda eða undirritun skoðunarmanna og upplýsingar um hvenær ársreikningurinn var samþykktur.
Ákvæði 4. máls. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006:
Ársreikningum og samstæðureikningum skal skilað rafrænt til ársreikningaskrár í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur.
Ákvæði 1. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006:
Ársreikningaskrá skal leggja stjórnvaldssektir á þau félög sem vanrækja skyldu samkvæmt lögum þessum til að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra fresta sem kveðið er á um í 109. gr. Þegar frestur skv. 109. gr. til skila á ársreikningi eða samstæðureikningi er liðinn skal ársreikningaskrá leggja á viðkomandi félag stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. og jafnframt krefjast úrbóta.
Ákvæði 2. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006:
Skili félag ársreikningi eða samstæðureikningi innan 30 daga frá tilkynningu um álagningu stjórnvaldssektar skal ársreikningaskrá lækka sektarfjárhæðina um 90%. Ef úrbætur eru gerðar innan tveggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 60%. Ef úrbætur eru gerðar innan þriggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 40%.
Ákvæði 5. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006:
Stjórnvaldssektirnar eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Ákvörðun ársreikningaskrár um álagningu sektar skv. 3. mgr. er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992. Ákvörðun ársreikningaskrár um álagningu sektar skv. 1. og 2. mgr. er endanleg á stjórnsýslustigi.
Ákvæði 6. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006:
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Ákvæði 7. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006:
Óinnheimtar stjórnvaldssektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum ársreikningaskrár, sbr. þó 4. mgr. 121. gr.
Ákvæði 8. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006:
Heimilt er að lækka eða fella niður stjórnvaldssekt skv. 1. og 2. mgr. hafi óviðráðanleg atvik sannarlega valdið því að félag hafi ekki staðið skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra fresta sem kveðið er á um í 109. gr.
Ákvæði 9. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006:
Heimild ársreikningaskrár skv. 8. mgr. til að lækka eða fella niður álagðar stjórnvaldssektir skv. 1. og 2. mgr. er háð því skilyrði að ársreikningi eða samstæðureikningi félags hafi verið skilað til ársreikningaskrár í samræmi við ákvæði laga þessara.
Kveðja / Regards
